Á Birkihlíð eru að jafnaði 20 börn á aldrinum þriggja til fjögurra ára.
Verkefnavinna
Í verkefnavinnu er börnunum skipt eftir aldri í minni hópa. Þar sem skipulagt starf er unnið í hópum og ber þar að nefna vísindaleikinn, útiveru og málörvun.
Á deildinni er mikið lagt upp úr því að rækta félagslegan þroska þar sem þau læra að þekkja inn á sjálfan sig og aðra og læra að þekkja og virða mörk annara.
Málörvun
Málörvun er stór og mikilvægur þáttur í starfi deildarinnar. Lögð er áhersla á að barnið geti notað málið til tjáningar og tekið þátt í samræðum en málskilningur og málnotkun er aukið með markvissum æfingum. Þetta á sér stað bæði í hópum og í daglegu starfi þar sem lögð er áhersla á endurtekningu og ólíkar æfingar.
Listsköpun sem tungumál
Mikið er lagt upp úr tjáningu í ólíkum formum eins og teikningu, með leir eða örðum efnislegum hlutum eða í gegnu gjörðir, enda mörgum börnum á þessum aldri ekki tamt að koma hlutunum frá sér í orðum og getur því ólík form orðið sterkur tjáningar máti fyrir barnið.
Barn vikunnar
Í hverri viku er eitt barn úr hópnum barn vikunnar þá er athyglinni beint sérstaklega að því barni. Helgina áður fer barnið heim með apann Rauð (Bangsi deildarinnar) og foreldrar aðstoða barnið við að skrifa um samveruna með bangsanum.
Á mánudeginum segir barnið frá helginni með aðstoð kennara í samverustund.
Barn vikunnar er einnig veðurfræðingurinn þar sem spáð er í veðrið og fatnað sem þarf þegar út er farið og það er þjónn sem hjálpar við að ná í matinn og að leggja á borð.
Á föstudeginum má barnið koma með eitthvað að heiman til að sýna og segja frá.
Samverustund
Markmiðið er að njóta þess að vera saman í hóp og skemmta sér saman. Börnin læra að þau þurfa að hlusta á aðra og taka tillit til annara (bæði börn og fullorðna), læra söngva, þulur og ýmsa leiki. Þau læra jafnframt að koma fram og að tjá sig í stórum hóp.
Útivera
Í útiveru er markmiðið að örva hreyfiþroska barnanna og líkamlegt úthald, kenna þeim ýmislegt um náttúruna og að njóta hennar. Auk þess læra þau ýmsa hópleiki (t.d. stórfiskaleik).
Listasmiðjan
Einu sinni í viku fara börnin í listaskálann til Dýrleifar þar sem unnið er með ólík efni og að ólíkum verkefnum sem oft á tíðum tengjast þeim verkefnum sem unnin eru inn á deildum.